042

 

118
107

 

Náttúrulífsmynd, Sólarlag við Snæfellsjökul 2014

 

Náttúrulífsmynd, Bárður Snæfellsás á Arnarstapa 2014

Nóg að sjá í Snæfellsbæ

Velkomin í Snæfellsbæ – pdf bæklingur

Snæfellsbær er á utanverðu Snæfellsnesi.  Bæjarmörkin eru annars vegar í Staðarsveit, rétt vestan við Vegamót  og hins vegar að norðan í Búlandshöfða.  Bæjarfélagið er um 680 ferkílómetrar að stærð og íbúar þess eru um 1800.  Flestir búa í þéttbýliskjörnunum Ólafsvík, Rifi og Hellissandi, en aðrir íbúar eru dreifðir um sveitir þess, Fróðárhrepp, Breiðuvík og Staðarsveit, eða minni þéttbýliskjarna á Hellnum og Arnarstapa.  Í bæjarfélaginu eru því víðáttumikil óbyggð svæði þar sem auðvelt er að komast í snertingu við óspillta náttúru.

Hringvegur er um Snæfellsbæ og ef komið er akandi frá Reykjavík eftir vegi 54 er við Fróðárheiði hægt að velja að aka yfir heiðina og norður fyrir og þaðan hring um Jökulinn eða að aka um Útnesveg eftir vegi 574 í hring norðurfyrir.  Snæfellsjökull er því nokkurs konar miðja í bæjarfélaginu sem sést víða að.

 

Það sem einkennir Snæfellsbæ öðru fremur er hin stórkostlega náttúra sem þar er að finna.  Þar ber hæst Snæfellsjökul sem á sér vart annan líkan.  Frá jarðfræðilegu sjónarmiði er þetta svæði einstakt í veröldinni.  Hér má finna heitt og kalt ölkelduvatn sem hefur mikinn heilunarmátt, stórbrotnar hraunbreiður sem eru gífurlega fjölbreyttar að lögun, gróðri og útliti.  Hér eru gróin tún og engi, fjöldi eldgíga af ýmsum gerðum, stórbrotin fjöll, fjölbreytt úrval af hellum, hrikalegar og fagrar strandlengjur með stórbrotnu stuðlabergi og sandbreiðum.  Hér eru fossar af öllum gerðum, uppsprettulindir og lækir, vötn og ár sem geyma silung og lax, sellátur, fjölbreytt fuglalíf, gjöful fiskimið og hvergi er styttra að fara á Íslandi til að sjá hvali af öllum gerðum.  Um allt þetta svæði eru svo gönguleiðir, slóðar og vegir sem gerir ferðamönnum auðveldara að njóta alls sem Snæfellsbær hefur að bjóða.

 

Svæðið frá Dagverðará í suðri til og með Gufuskálum í norðri tilheyrir Þjóðgarðinum Snæfellsjökli sem var formlega vígður sumarið 2001.

 

Í Snæfellsbæ er sagan við hvert fótmál.  Fá svæði á landinu eru með eins mikið af ósnertum fornminjum og hér í Snæfellsbæ.  Bárðarsaga Snæfellsáss, Víglundarsaga, Eyrbyggja ásamt urmul af þjóðsögum eiga sögusvið sitt í Snæfellsbæ.  Mikið af nafngiftum náttúrustaða eru komnar úr þessum sögum.