Dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar

Lokið var við byggingu dvalarheimilisins Jaðars í Ólafsvík árið 1986 og það vígt og tekið í notkun það sama ár. Byggingin er á 2 hæðum, alls 6 íbúðir auk sameiginlegs rýmis, matsalar og aðstöðu starfsmanna. Vegna mikillar eftirspurnar var einni íbúðinni fljótlega breytt í 3 einstaklingsherbergi. Heimilið er staðsett í miðjum bænum en þó við íbúðagötu. Allt frá vígslu heimilisins hafa heimilinu borist margar gjafir frá einstaklingum og félagasamtökum í bæjarfélaginu. Íbúarnir sýna starfsemi hússins mikinn hlýhug og stuðning við ýmis tilefni.

Í ágústmánuði 2010 var tekin í notkun um 1100 fermetra viðbygging Jaðars en það er hjúkrunarálma á 2 hæðum, alls 12 rúmlega 34 fermetra herbergi auk stórbættrar aðstöðu starfsmanna, matar- og samkomusalar.  Viðbygging Jaðar snýr í austur í átt að hafnarsvæðinu og þaðan er fallegt útsýni enda húsið þannig hannað að útsýni og birta fái notið sýn. Húsið fellur vel að nánasta umhverfi sínu og setur sterkan svip á miðbæ Ólafsvíkur.

————————————————————————————————————————-

Á Jaðri er lögð áhersla á góða hjúkrun, umönnnun og að annast heimilisfólk í  notalegu og heimilislegu umhverfi sem þeir þekkja og treysta. Með tilkomu nýju hjúkrunarálmunnar verður öll aðstaða til þeirrar þjónustu mun betri en verið hefur, hvort tveggja fyrir íbúa og starfsfólk heimilisins.

Hugmyndafræði Jaðars byggist á að umhyggja fyrir einstaklingnum sé í fyrirrúmi og að sjálfræði hans sé virt í allri umönnun. Mikið er lagt uppúr heimilislegum anda, virðingu fyrir einkalífi heimilismanna og að þeir upplifi öryggistilfinningu. Unnið er útfrá heildrænni umönnun einstaklingsins sem miðar að því að viðhalda lífsgæðum, færni og vellíðan útfrá líkamlegri, andlegri og félagslegri getu. Viðfagnsefnið eru athafnir daglegs lífs með þátttöku heimilismanna og aðstandenda þeirra, allt eftir óskum, getu og vilja hvers og eins og er markmiðið að auka og viðhalda sjálfsbjargargetu einstaklingsins, ­þannig að hann geti viðhaldið sjálfsmynd og sjálfsvirðingu þrátt fyrir hrakandi heilsufar og færnitap. Horft er á einstaklinginn, heilbrigði hans, umhverfi og hjúkrun sem órjúfanlega heild.

Ættingjar eru alltaf velkomnir í heimsóknir. Markmiðið er að aðstandendum líði vel við komu hingað og geti látið fara vel um sig og sína. Af öryggisástæðum er heimilinu læst á kvöldin. Ættingjar geta notað dyrabjöllu utan þess tíma. Aðstandendur og vinir eru hvattir til að koma í heimsókn og eru reglulegar heimsóknir oft fastir liðir á dagskrá nánustu ættingja.

Upplýsingar

Jaðar er til húsa að:
Hjarðartúni 3, 355 Ólafsvík

Sími: 433-6931 og 433-6932
Netfang: jadar@snb.is

Forstöðumaður:
Inga Jóhanna Kristinsdóttir

Læknisþjónusta:
Vikulegar vitjanir frá læknum
Heilsugæslustöðvarinnar í Ólafsvík

Prestþjónusta og sálgæsla:
Vikulegar vitjanir frá
sóknarpresti Ólafsvíkurkirkju

Önnur þjónusta:
Félagsstarf 5-6 sinnum í viku
Hárgreiðslumeistari 1x í mánuði
Snyrti- og fótaaðgerðafræðingur
Soroptimistar lesa upp úr bókum

Heimasíðu hnappur - final

Facebook Hnappur - final