Snæfellsnes er sérlega ríkt af sögu, bæði fornri og nýrri. Eyrbyggjasaga er talin eitt af öndvegisritum íslenskra fornsagna og segir sögu landnáms og búsetu á Snæfellsnesi. Landnámabók  er rituð á Staðastað og er elsta heimild um landnám Íslands. Þá er Snæfellsnes einnig sögusvið margra þekktra Íslendingasagna t.d. Bárðar sögu Snæfellsáss og Björns sögu Hítdælakappa, svo nokkrar séu taldar. Þekktustu bókmenntaverkin sem tengjast mannlífi og náttúru svæðisins eru án efa „Kristnihald undir Jökli“ eftir Halldór Laxness og „Leiðin að miðju jarðar“ eftir Jules Verne. Saga Axlar-Bjarnar, sem bjó á Öxl í Breiðuvík, er ein magnaðasta glæpasaga Íslandssögunnar. Saga þéttbýlis á svæðinu er einnig merk þar sem Hellissandur er talinn eitt fyrsta sjávarþorp á Íslandi.
Gömlu kaupstaðirnir Rif, Ólafsvík, Grundarfjörður og Stykkishólmur eiga sér allir merka sögu frá ýmsum tímum enda auðlegð sjávar hvati mikilla viðskipta við Snæfellsnes um aldir. Gestir geta notið fjölbreyttra menningarviðburða á Snæfellsnesi, bæði sumar og vetur. Þá er áhugavert fyrir gesti að taka eftir hinu fjölbreytta byggðamunstri og umhverfi staðanna sem hver hefur sín einkenni í byggingarlist, umhverfi og jafnvel veðurfari. Þá er hægt að rýna í gamlar rústir og velta fyrir sér atvinnu- og lífsháttum fyrri tíma, eða spá í sögusvið Kristnihalds Halldórs Laxness og leiðina að miðju jarðar sem Jules Verne sá fyrir sér í sínum skrifum. Líka er hægt að lesa í landið til að sjá fyrirmyndir meistara eins og Kjarvals eða Collingwoods, svo eitthvað sé nefnt. Vaxandi ferðaþjónustu með fjölbreyttri gistingu, veitingum og afþreyingu  er að finna víða á Snæfellsnesi.
Lesa meira

Langir þig að læra meira um sögu Snæfellsbæjar?

Fjöldinn allur af sögum hafa átt sér stað innan bæjarmarka Snæfellsbæjar!

Lesa meira