Snæfellsbær

Sveitarfélagið Snæfellsbær liggur á sunnan- og utanverðu Snæfellsnesi og hringar sig um Snæfellsjökul. Bæjarmörkin á sunnanverðu nesinu eru í Staðarsveit, rétt vestan við Vegamót, en að norðan liggja þau um Búlandshöfða. Bæjarfélagið er um 680 ferkílómetrar að stærð og íbúar þess eru um 1.800. Flestir búa í þéttbýlisstöðunum á norðanverðu nesinu, þ.e. Ólafsvík, Rifi og Hellissandi, þá er byggð í sveitunum bæði  sunnan- og norðanfjalls, auk þess sem nokkur heilsárs- og sumarhúsabyggð er á Hellnum og Arnarstapa. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull tekur svo yfir 170 ferkílómetra yst á Snæfellsnesi og nær frá Dagverðará að Gufuskálum og er eini þjóðgarðurinn á Íslandi sem nær að sjó, en einnig eru strendurnar við Arnarstapa og Hellnar friðaðar og Búðahraun er friðland. Engin byggð er innan þjóðgarðsins og því eru víðáttumikil, óbyggð svæði innan sveitarfélagsins þar sem auðvelt er að komast í snertingu við óspillta náttúru. 

Meira um bæjarfélagið

Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnuvegur Snæfellsbæjinga, en þrjár lifandi hafnir eru í Snæfellsbæ og eru þar rekin rótgróin útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, öflugur fiskmarkaður og nokkur smábátaútgerð, því er alltaf áhugavert að fara niður á höfn og fylgjast með lífinu þar. Ferðaþjónusta hefur verið vaxandi atvinnugrein í Snæfellsbæ, en einnig eru þar fyrirtæki og stofnanir sem þjónusta bæði íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Þá eru starfandi vélaverktakar, einnig ýmis smáfyrirtæki og  stundaður er hefðbundinn búskapur í sveitinni. Reynt hefur verið að byggja á gæðum og auðlindum svæðisins í allri atvinnuuppbyggingu og gæta að sjálfbærni í því sambandi, en sveitafélagið Snæfellsbær hefur ásamt öðrum sveitarfélögum á Snæfellsnesi verið með virka umhverfisvottun frá Earth Check frá árinu 2008.